Ég er mjög hrifin af sykurkökum. Bæði eru þær góðar á bragðið og svo er hægt að skreyta þær á óteljandi vegu.
Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera með í hátíðarblaði Hús og Híbýla en þar skreytti ég t.d. hvern matardisk með litlu sykurkökudádýri og jólatréi.
Núna fyrir jólin bakaði ég mikið af súkkulaði og vanillu sykurkökum sem ég skreytti svo með Kóngabráð (Royal Icing) og sykurmassa. Það er til svo ótrúlegur fjöldi að skemmtilegum kökuskerum svo það er lítið mál að skera út og skreyta þessar bragðgóðu kökur fyrir hvaða tilefni sem er, t.d. brúðakaup, afmæli, fermingar, jól, páska, útskriftir, gæsapartý o.s.frv.
Ég hef verslað mína kökuskera hérna heima m.a. í Kokku, Allt í köku, Ikea, Kosti og Hagkaup. Ég hef líka pantað marga skemmtilega kökuskera á AliExpress. Etsy er líka með fullt af flottum kökuskerum svo það er um að gera að googla aðeins ef þið eruð að leita að einhverju ákveðnu formi.
Í janúar ætla ég að byrja með námskeið þar sem ég kenni aðferðir til að skreyta þessar skemmtilegu kökur. Ég mun kenna hvernig hægt er að búa til skyrtur og jakka, kjóla, íþróttatreyjur, ísform, blöðrur og margt, margt fleira.
Hérna finnið þið uppskriftin að vanillu sykurkökunum og hérna kemur uppskriftin að súkkulaði sykurkökunum:
- 200 gr mjúkt smjör (við stofuhita)
- 200 gr sykur
- 1 egg
- 350 gr hveiti
- 50 gr gott kakó (ég nota oftast kakóið frá Nóa Síríus)
Aðferð:
- Hrærið saman í hrærivél (notið spaðann ef hægt er) smjöri og sykri þar til allt hefur blandast saman og blandan byrjar að lýsast. Ekki hræra of lengi því þá geta kökurnar „lekið“ (halda ekki lengur forminu) þegar þær eru bakaðar.
- Bætið egginu út í og hrærið áfram í ca. 30 sek.
- Bætið nú hveitinu og kakóinu út í blönduna og blandið áfram þar til blandan verður að kökudeigi.
- Skiptið deiginu í tvo helminga og búið til tvær kúlur úr deiginu.
- Setjið deigið á matarfilmu og fletjið það örlítið út með höndunum.
- Látið deigið hvíla í ísskáp í 30 mínútur.
- Takið deigið úr ísskápnum og stráið örlitlu hveiti á borðið. Hnoðið degið örlítið.
- Leggið deigið á bökunarpappír. Ég klippi niður ca. 80 cm af bökunarpappír en þá get ég lagt deigið á helminginn og brotið svo restina yfir og flatt deigið þannig út. Þá festist það hvorki við keflið né borðið.
Bökunarpappírinn á það svolítið til að skríða um borðið en ef þið eigið sílikonmottu þá er algjör snilld að hafa hana undir bökunarpappírnum – þá ætti hann ekkert að skríða frá ykkur. - Þegar þið hafið flatt kökurnar út (ég hef þær örlítið þykkari en piparkökur) þá er ykkur óhætt að skera þær út með þeim formum sem þið hafið valið.
- Leggið kökurnar á bökunarplötu (ég lyfti þeim upp með pönnukökuspaða) með bökunarpappír eða sílikonmottu á og setjið plötuna inn í ísskáp í 20 – 30 mínútur.
- Að þeim tíma liðnum er okkur óhætt að baka kökurnar. Þær bakast í 8 – 12 mínútur, eftir stærð og þykkt. Reynið að baka þær ekki of lengi því þá verða þær svo stökkar. Kökurnar eru tilbúnar þegar þær eru orðnar stífar á köntunum en mjúkar í miðjunni.
- Látið kökurnar kólna á vírgrind. Kökurnar geymast í ca. mánuð skreyttar en bragðast best á fyrstu 7-10 dögunum.
Njótið vel!