Jólalegar skreytingar á bollakökum – uppskrift

Hafið þið skoðað myndirnar hennar Kristínar Valdimarsdóttur? Þær eru svo dásamlega fallegar að það nær engri átt!  Ef þið hafið ekki rekist á dásamlegu myndirnar hennar þá getið þið skoðað þær hérna og hérna er Facebooksíðan hennar.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu glöð ég var þegar Kristín hafði samband við mig og spurði mig hvort ég vildi baka og skreyta bollakökur sem hún myndi svo mynda fyrir jóladagatalið sitt.
Myndirnar komu auðvitað æðislega út hjá henni eins og þið sjáið hér fyrir neðan 🙂

Jólalegar bollakökur - Allt sætt Jólalegar bollakökur - Allt sætt Jólalegar bollakökur - Allt sætt Jólalegar bollakökur - Allt sætt Jólalegar bollakökur - Allt sætt Jólalegar bollakökur - Allt sætt Jólalegar bollakökur - Allt sætt Í janúar og febrúar verð ég með ýmis námskeið í kökuskreytingum m.a. námskeið þar sem ég kenni hvernig á búa til þessar fallegu sykurmassarósir sem setja sko punktinn yfir i-ið á bæði bollakökum og stærri kökum. Hérna sjáið þið nánari upplýsingar um námskeiðin mín. Það er svo auðvitað hægt að kaupa falleg gjafabréf á námskeiðin – tilvalið að lauma því í jólapakka til einhvers sem þér þykir væant um 🙂

Hérna fyrir neðan eru svo uppskriftir að súkkulaðibollakökum og einföldum en góðum smjörkremum.

Súkkulaðibollakökur (ca 22 stk)

 • 200 gr hveiti
 • 50 gr kakó
 • 1  tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 220 gr sykur
 • 250 ml súrmjólk eða hrein Ab mjólk
 • 160 ml grænmetisolía (eða önnur bragðlaus olía)
 • 2 stór egg
 • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

 • Hitið ofninn í 180°C.
 • Sigtið hveiti, kakó, salt og matarsóda saman í skál. Setjið til hliðar.
 • Setjið sykur, súrmjólk, olíu, egg og vanilludropa í hrærivélaskál og þeytið á miðlungshraða í ca. 2 mínútur.
 • Blandið þá hveitiblöndunni rólega út í. Skafið hliðarnar og botninn á hrærivélaskálinn með sleikju svo allt blandist nú vel saman. Hrærið áfram í eina mínútu.
 • Skiptið deiginu í bollakökuformin (fyllið þau að 2/3 ef þið viljið að kakan rísi yfir formið en 1/2 ef þið viljið að kakan ná ekki yfir bollakökuformið) og bakið í 18-20 mínútur. Látið kökurnar kólna á vírgrind.

Einfalt en klassískt smjörkrem:

 • 250 gr mjúkt smjör
 • 500 gr flórsykur
 • 1,5 tsk vanilludropar EÐA 2 msk kakó ef þið viljið búa til súkkulaðikrem

Aðferð:

 • Setjið öll hráefnin saman í skál og hrærið varlega þar til flórsykurinn (og kakóið) hefur blandast við smjörið. Aukið þá hraðann og hrærið kremið áfram í 4-5 mínútur eða þar til kremið er orðið mjög létt.
 • Ef ykkur finnst skremið vera stíft þá læt ég oft renna sjóðandi heitt vatn utan á hrærivélaskálina þar til ég sé kremið byrja að bráðna þar sem það liggur við skálina (passið að setja ekki vatn út í kremið) Hættið þá að láta renna á skálina og hrærið kremið aftur í ca 1 mínútu. Þá sér skálin, sem nú er nokkuð heit, um að mýkja smjörið. Ég nota þessa aðferð oft þegar ég ætla að sprauta t.d. rósir á kökur.

Til að búa til jólarósirnar þá lita ég sykurmassa með rauðum matarlit. Hann fæst einnig litaður hjá Allt í köku og oft í Hagkaup ef þið nennið ekki að standa í því að lita hann sjálf. Ég flet hann út þunnt og sker út laufblöð með laufblaðastimpli. Ég toga örlítið í laufblöðin til að lengja þau. Ég sker svo út litla hringi með t.d. blómastimpli og legg hringinn í eplabakka (sem ég fæ í Bónus – pappabakkar sem eplin sitja á í kössunum – ég kippi bara einum með mér þegar ég fer í Bónus – kostar ekkert og er algjör snilld að eiga undir sykurmassablóm) Ég pensla örlitlu vatni á hringinn og festi svo laufin á – fimm laufblöð. Því næst sker ég út þrjú lauflöð til viðbótar, toga þau aðeins til að lengja og sker svo ca 1/3 neðan af þeim. Þá pensla ég örlitlu vatni á laufblöðin sem þegar eru komin í epplabakkann og raða svo litlu laufblöðunum ofan á þau. Blómið læt ég svo þorna yfir nótt. Daginn eftir lita ég örlítið af smjörkreminu (sem ég geymdi – alveg nóg að lita 1-2 msk) með gulum matarlit og sprauta litlar doppur í miðju plómsins. Þá er jólarósin tilbúin 🙂
Þessar bollakökur klæddi ég með hvítum sykurmassa – setti vanillusmjörkrem ofan á bollakökurnar og skar svo út hringi (örlítið stærri en bollakakan sjálf) úr hvítum sykurmassa og lagði ofan á bollakökuna. Sléttið vel úr massanum og festið blómin á sykurmassann með örlitu smjörkremi.

Góða skemmtun!

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *