Mig langaði svo til að sýna ykkur eina aðferð við að skreyta kökur með súkkulaði. Þessi litla elska er hjúpuð með sykurmassa og skreytt með súkkulaði sem ég málaði svo með gulldufti sem fæst í Allt í köku.
Þetta litla krútt bakaði ég í 10 cm formum sem ég keypti í Söstrene Grene – þetta eru þrír súkkulaðibotnar með vanillusmjörkremi á milli og yfir – namm!
Ég byrja á því að hjúpa kökuna með smjörkremi. Þá set ég hana í kæli í 30 mínútur áður en ég hjúpa hana með hvítum sykurmassa. Það er mun auðveldara að hjúpa kalda köku því þá gefur kremið ekki eftir þegar við sléttum massann á kökunni. Ég set svo kökuna aftur í ísskápinn – núna í ca. klukkustund.
Að klukkustund liðinni (má alveg vera lengur, t.d. yfir nótt) bræði ég súkkulaði í örbylgjuofninum. Ég notaði Candy melts í hvítu á þessa köku en það er líka hægt að bræða hvítt súkkulaði og nota það til að skreyta kökuna. Ef ég nota Candy Melts þá set ég svolítið af bragðlausri olíu út í súkkulaðið þegar það hefur bráðnað til að þynna það svolítið, þá lekur það betur niður kökuna. Ef ég nota súkkulaði (hvitt eða dökt) þá þynni ég það með rjóma áður en ég helli því yfir kökuna. Hellið súkkulaðinu ofan á kökuna og dreyfið varlega úr því með spaða svo súkkulaðið leki rólega yfir brúnirnar. Látið kökuna standa á borðinu þar til súkkulaðið hefur stífnað. Þegar ég skreyti kökur með súkkulaði sem svo stífnar þá hita ég beittan hníf vel undir heitu vatni áður en ég sker kökuna, þá brotnar súkkulaðið ekki þegar hún er skorin.
Ég notaði perluduft frá Allt í köku til að mála gullið á kökuna. Ég vildi að gullið myndi þekja vel súkkulaðið og þá er best að blanda það með alkóhóli (maður þarf bara nokkra dropa). Ef þið eigið ekki vodka þá er hægt að nota t.d. sítórnudropa Setjið 1 tsk af gullduftinu í litla skál og blandið örfáum dropum af alkóhóli út í og hrærið saman með pensli. Bætið dufti eða alkóhóli út í þar til þið eruð ánægð með áferðina (þykktina). Ástæðan fyrir því að við notum alkóhól til að blanda út í duftið er að alkóhólið gufar hratt upp og veldur ekki vatnsskemmdum á kökunni. Það einfaldlega gufar upp og eftir situr gullduftið.
Ég keypti svo fyrir löngu síðan þetta fallega gullband sem ég batt neðarlega á kökuna. Ég man nú ekki alveg hvar ég fékk það – líklega í Föndru eða Vouge.
Kakan er falleg svona ein og sér en ég bjó líka til rósir úr sykurmassa til að sýna ykkur fleiri hugmyndir að skreytingum. Hægt er að skrá sig á námskeið hjá Allt sætt sem haldið verður eftir áramót þar sem ég kenni hvernig búa á til þessar litlu krúttlegu rósir úr sykurmassa.
Stóra rósin tekur svo nokkuð langan tíma í framleiðslu eða 2-3 daga 😉
Ást og friður!