Áramótabomban – Súkkulaði- og vanillukaka með saltri karamellusósu og smjörkremi

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Ég er búin að taka því (aðeins of) rólega yfir hátíðirnar og hef engu póstað síðan fyrir jól en ekki láta ykkur detta í hug að ég hafi ekki bakað í fríinu – það var sko ekki svo.

Í dag langar mig að deila með ykkur uppskrift að kökunni sem við buðum upp á í áramótapartýinu okkar. Þessi kaka sló þvílíkt í gegn enda á Nigella sjálf uppskriftina að karamellunni – og hún (Nigella….nei ég meina karamellan) er fullkomin! Kakan er sem sagt súkkulaðibotn, vanillubotn, karamellusósa með flögusalti , smjörkrem með karamellusósunni og súkkulaðibráð yfir.  
Áramótabomban - Súkkulaði og vanillukaka með saltri karamellusósu og smjörkremi

Áramótabomban - Súkkulaði og vanillukaka með saltri karamellusósu og smjörkremiÁramótabomban - Súkkulaði og vanillukaka með saltri karamellusósu og smjörkremi

Kakan sem ég bakaði var þvílíkt monster að því leiti að hún var sett saman úr sex 20 cm botnum sem gerir hana svona háa og glæsilega. Ég skiptist þá á að setja karamellusósu og svo smjörkrem á milli botnanna. Ég ætla þó að gefa ykkur uppskrift að minni útgáfu (tveir botnar) en þessari því hún er aðeins „over the top“ nema ef þið eigið von á 35 manns í kaffi 😉

En hérna koma uppskriftirnar:

Súkkulaðikaka

 • 200 gr sykur
 • 135 gr hveiti
 • 40 gr kakó
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1 stk egg
 • 125 ml súrmjólk eða AB mjólk 
 • 125 ml sterkt kaffi ( ég nota oftast instant, blanda bara upp á vel sterkan bolla)
 • 60 ml grænmetisolía (ég nota Wesson)
 • 1 tsk góð vanilla (ég nota vanillu frá Kirkland sem fæst í Kosti)

Aðferð:

 • Byrjið á því að undirbúa eitt 23 cm hringlaga form (allt deigið fer í eitt form). Baksturstíminn er þá ca 45-50 mínútur m.v. 175°C heitan ofn. Formin spreyja ég með olíu (t.d. Pam), klippi svo til hring af smjörpappír og legg í botninn á forminu.
 • Allt hráefnið er sett í eina skál og blandað saman í hrærivél. Stoppið hrærivélina eftir eina mínútu og með sleikju, hreinsið hliðarnar á skálinni svo allt blandist nú vel. Hrærið áfram í aðra mínútu.
 • Takið kökuna úr ofninum þegar hún er tilbúin og látið hana standa í ca. 5 mínútur á borðinu í forminu. Að því loknu er óhætt að hvolfa kökunni á kæligrind/vírgrind og fjarlægja varlega smjörpappírinn af kökunni. 
 • Nú þarf kakan að fá að kólna á borðinu.

Vanillukaka

 • 175 gr hveiti
 • 1/2 msk lyftiduft
 • 115 gr mjúkt smjör
 • 215 gr sykur
 • 3 stór egg
 • 1 tsk góðir vanilludropar
 • 150 ml súrmjólk eða hrein AB mjólk

Aðferð:

 • Byrjið á því að undirbúa eitt 23 cm hringlaga form (allt deigið fer í eitt form). Baksturstíminn er þá ca 45-50 mínútur m.v. 175°C heitan ofn. Formin spreyja ég með olíu (t.d. Pam), klippi svo til hring af smjörpappír og legg í botninn á forminu.
 • Sigtið hveitið, lyftiduftið og saltið saman í skál. Setjið til hliðar.
 • Þeytið smjörið í hrærivél (með spaðanum) þar til það er orðið létt og ljóst, í ca. 3 mínútur.
 • Bætið sykrinum út í smjörið og þeytið áfram í ca. eina mínútu. Skafið skálina að innan með sleikju til að vera viss um að allt blandist vel saman.
 • Hrærið áfram í eina mínútu.
 • Bætið eggjunum, einu í einu út í blönduna og hrærið vel á milli.
 • Skafið skálina aftur að innan með sleikjunni
 • Bætið ca. 1/2 af hveitiblöndunni út í og hrærið.
 • Bætið þá ca 1/2 af súrmjólkinni út í og endurtakið ferlið þar til allt hveitið og öll súrmjólkin er komin út í. Skafið skálina að innan með sleikju til að vera viss um að allt hafi blandast vel saman.
 • Takið kökuna úr ofninum þegar hún er tilbúin og látið hana standa í ca. 5 mínútur á borðinu í forminu. Að því loknu er óhætt að hvolfa kökunni á kæligrind/vírgrind og fjarlægja varlega smjörpappírinn af kökunni. 
 • Nú þarf kakan að fá að kólna á borðinu.

Karamellusósa með sjávarsalti (uppskrift frá Nigellu Lawson)

 • 75 gr smjör
 • 50 gr púðursykur
 • 50 gr sykur
 • 50 gr sýróp
 • 125 ml rjómi
 • 1 tsk sjávarsalt t.d. Flögusalt frá Saltverk

Aðferð

 • Bræðið saman smjör, púðursykur, sykur og sýróp í góðum potti (með þykkum botni ef þið eigið) og látið blönduna malla í 3 mínútur. Passið ykkur á því að hafa pottinn ekki of lítinn því sósan kraumar mikið þegar við hellum rjómanum út í hana og margfaldast þá að ummáli þar til hún kólnar aðeins aftur.
 • Bætið núna rjómanum varlega út í ásamt flögusaltinu (ekki borðsalti) – byrjið á að setja 1/2 tsk af salti og smakkið svo sósuna til. Passið ykkur bara að brenna ykkur ekki því karamellan er svakalega heit! Bætið meira salti út í sósuna eftir smekk.
 • Látið karamelluna kólna í pottinum – hún þykknar þegar hún kólnar og þá er auðveldara að setja hana á kökuna.

Smjörkrem með saltri karamellu

 • 3eggjahvítur eða 90 gr 
 • 150 gr sykur 
 • 250 gr mjúkt smjör 
 • ca 1/2 dl karamellusósa með sjávarsalti (sjá uppskrift hér fyrir ofan) Karamellan þarf að vera við stofuhita – alls ekki heit. 

Aðferð:

 • Fyrst þarf að gæta að því að skálin og þeytarinn séu laus við alla fitu. Best er að þvo bæði upp úr sjóðandi heitu sápuvatni, skola svo vel og þurrka með alveg hreinu viskastykki. Sumir þurrka innan úr skálinni og þeytarann með sítrónusafa en sýran leysir fituna upp.
 • Þá er næst að setja vatn (1/3) í lítinn pott og hita vatnið.
 • Aðskiljið eggjahvíturnar frá rauðunum og setjið í skálina ásamt sykrinum og blandið saman. Skálin fer þá ofan á pottinn með sjóðandi vatninu.Nú er mikilvægt að fara ekki frá skálinni og vera dugleg að hræra í eggja og sykurblöndunni svo eggin eldist ekki. Líklega ekki mjög skemmtilegt að bjóða upp á smjörkrem með hrærðum eggjum í 😉 Blandan er hituð upp í ca 65°C-70°C eða þangað til sykurinn hefur alveg leyst upp í eggjahvítunum en það finnum við með því að taka örlítið af blöndunni og nudda henni milli tveggja fingra. Ég nota ekki hitamæli, frekar finn ég blönduna milli fingranna. Ef þið finnið ennþá fyrir sykrinum þá þarf að hræra aðeins lengur.
 • Þegar blandan er tilbúin þá færum við skálina yfir í hrærivélina og hrærum á meðal hraða með písknum í ca 8 mínútur.
 • Þá erum við komin með dásamlegan marens. Á þessum tímapunkti skipti ég yfir í spaðann á hrærivélinni en það er ekki nauðsynlegt.
 • Núna er okkur óhætt að bæta smjörinu (sem þarf að vera við stofuhita) hægt og rólega við blönduna. Gott að hræra vel á milli. Stundum verður kremið eins og kotasæla en þá er bara að hræra kremið áfram þar til það verður silki mjúkt og laust við alla kekki. Ef kremið er eins og súpa þá er bara að skella skálinni inn í ísskáp í 20-30 mín og halda svo áfram að hræra.
 • Núna er okkur óhætt að blanda karamellusósunni út í kremið

Súkkulaðibráð

 • 100gr suðusúkkulaði
 • 100 ml rjómi

Aðferð:

 • Brjótið súkkulaðið niður í litla bita og setjið í skál.
 • Hitið rjómann að suðu og hellið þá rjómanum yfir súkkulaðið.
 • Látið standa óhreyft í ca. 30 sek.
 • Blandið nú súkkulaðinu og rjómanum varlega saman með sleikju. Ef það eru enn súkkulaðimolar í kreminu sem ekki hafa bráðnað má setja skálina inn í örbylgjuofn í 20-30 sek. og halda svo áfram að blanda með sleikjunni.
 • Látið kremið standa á stofuborði í ca. 20-30 mín. áður en þið hellið því yfir kökuna.

Þá er bara að setja kökuna saman 🙂

 1. Setjið vanillubotninn á kökudisk.
 2. Takið ca einn bolla af smjörkreminu og setjið í sprautupoka (eða nestispoka ef þið eigið ekki sprautupoka) og klippið neðan af honum (eða eitt hornið af nestispokanum). Sprautið hring af smjörkreminu alveg við brún kökunnar. Með því búum við til stíflu svo karamellusósan leki ekki fram af kökubotninum.
 3. Hellið karamellu í miðjuna á vanillukökubotninum og dreifið jafnt úr henni alveg upp að smjörkremsstíflunni.
 4. Leggið súkkulaðibotninn varlega ofan á vanillubotninn og þrýstið létt niður.
 5. Sprautið restinni af kreminu sem þið settuð í sprautupokann ofan í skálina með kreminu. Smyrjið kökuna vel að utan með smjörkreminu. Það er gott (og nauðsynlegt ef við erum að gera mjög háa köku sem við viljum fá fallega súkkulaðitauma niður með kökunni) að kæla kökuna í ca 20-30 mínútur í kæli áður en við hellum súkkulaðibráðinni yfir hana.
 6. Hellið súkkulaðibráðinni yfir kökuna (ef súkkulaði er of þykkt til að það leki þá má setja það í örfáar sek. í örbylgjuna)

Ég litaði svo svolítið af hvítu Candy Melts sem ég fékk í Kosti og málaði brauðformin með súkkulaðinu og stráði svo smá ætu gulli yfir. Þá var ég komin með  þessa fínu áramótahatta sem ég skreytti kökuna með. Gosið fékk ég svo í partýbúðinni.

Þá er bara að bretta upp ermarnar og hefja baksturinn 😉

Njótið vel!

Áramótabomban - Súkkulaði og vanillukaka með saltri karamellusósu og smjörkremi

Share

One thought on “Áramótabomban – Súkkulaði- og vanillukaka með saltri karamellusósu og smjörkremi

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *