Skreyttar sykurkökur – uppskrift

Þessar skemmtilegu og bragðgóðu kökur eru æðislegar við öll tilefni. Deigið og aðferðin við baksturinn sjá til þess að kökurnar halda alveg laginu þegar þær eru bakaðar.
Það er hægt að nota hvaða piparkökumót sem er til að skera út kökurnar, möguleikarnir eru endalausir. Ég hef keypt mín mót á Amazon, hjá Allt í köku, í Kokku og á ýmsum öðrum stöðum. Formin sem ég notaði í þessar kökur fékk í Allt í köku. Þetta eru hjörtu og mót sem eru í laginu eins og ís. Hérna sjáið þið hvernig ég hef skreytt ís kökurnar með Royal icing (glassúr).
Ég hef líka oft stungið sleikjópinnum í degið áður en kökurnar fara inn í ofn og þá erum við komin með kökusleikjóa 🙂 Hérna sjáið þið dæmi um sykurkökur á pinnum. Ég skreytti þessar kökur (trén, blómin og sveppina) með Royal icing (sem er mjög svipað og glassúr en R.i. harðnar mun meira og heldur sér mun betur en glassúr) en kökurnar í dag eru skreyttar með sykurmassa. Ég lita þá sykurmassann í þeim litum sem hæfa þemanu og þegar sykurkökurnar eru orðnar kaldar sker ég út sykurmassann með sama móti og ég notaði til að skera kökurnar út. Ég ber svo örlítið vatn á sykurkökuna með pensli og legg sykurmassann ofan á. Þá er hann fastur við kökuna.
Ég keypti mér stimpla í Söstrene Grene (kostuðu tæpar 1.500kr) , svipaða þessum, sem ég svo nota til að stimpla á sykurmassann. Það er líka hægt að stimpla beint á kökurnar áður en þær fara inn í ofninn ef þið ætlið ekki að setja sykurmassa eða glassúr yfir þær.
Hérna er svo bloggfærsla um litlu súkkulaði pýramídana.  Skreyttar sykurkökur - uppskrift www.alltsaett.comSkreyttar sykurkökur - uppskrift www.alltsaett.com Skreyttar sykurkökur - uppskrift www.alltsaett.com

Sykurkökur – uppskrift:

 • 200 gr mjúkt smjör
 • 220 gr  sykur
 • 1 stórt egg
 • 375 gr hveiti
 • Fræ úr einni vanillustöng

Aðferð:

 • Hrærið saman í hrærivél (notið spaðann ef hægt er) smjöri, sykri og vanillu þar til allt hefur blandast saman og blandan byrjar að lýsast. Ekki hræra of lengi því þá geta kökurnar „lekið“ þegar þær eru bakaðar.
 • Bætið egginu út í og hrærið áfram í ca. 30 sek.
 • Bætið nú hveitinu út í blönduna og blandið áfram þar til blandan verður að kökudeigi.
 • Skiptið deiginu í tvo helminga og búið til tvær kúlur úr deiginu.
 • Setjið deigið á matarfilmu og fletjið það örlítið út með höndunum.
 • Setjið deigið í ísskáp í 30 mínútur.
 • Takið deigið úr ísskápnum og stráið örlitlu hveiti á borðið. Hnoðið degið örlítið.
 • Leggið deigið á bökunarpappír. Ég klippi niður ca. 80 cm af bökunarpappír en þá get ég lagt deigið á helminginn og brotið svo restina yfir og flatt deigið þannig út. Þá festist það hvorki við keflið né borðið.
  Bökunarpappírinn á það svolítið til að skríða um borðið en ef þið eigið sílikonmottu þá er algjör snilld að hafa hana undir bökunarpappírnum. Þá ætti hann ekkert að skríða frá ykkur.
 • Þegar þið hafið flatt kökurnar út (ég hef þær örlítið þykkari en piparkökur) þá er ykkur óhætt að skera þær út með þeim formum sem þið hafið valið.
 • Leggið kökurnar á bökunarplötu (ég lyfti þeim upp með pönnukökuspaða) með bökunarpappír eða sílikonmottu á og setjið plötuna inn í ísskáp í 20 – 30 mínútur.
 • Að þeim tíma liðnum er okkur óhætt að baka kökurnar. Þær bakast í 8 – 12 mínútur, eftir stærð og þykkt. Kökurnar eru tilbúnar þegar þær byrja að dökkna á köntunum.
 • Látið kökurnar kólna á vírgrind. Kökurnar geymast í ca. mánuð ef þær eru geymdar í loftþéttum umbúðum.

Ef þið viljið prófa að skreyta kökurnar með Royal icing þá er hérna video með uppskrift og aðferð við að útbúa R.i. 🙂

Góða skemmtun!

Share

One thought on “Skreyttar sykurkökur – uppskrift

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *