Sítrónukaka með bláberjamauki og vanillu smjörkremi – uppskrift

Ég elska sítrónukökur! Bara elska þær til tunglsins og til baka 😉 Þessa uppskrift baka ég oft. Þetta er í raun uppskrift að svampbotnum en það sem er svo skemmtilegt er að maður getur bragðbætt hana með sítrónuberki, appelsínuberki eða vanillu. Það má skella ferskum berjum út í degið áður en kakan er bökuð og svo er hún góð með hverslags kremi eða rjóma.
Í dag bakaði ég hana með sítrónuberki. Ég bjó svo til bláberjamauk sem ég setti á milli botnanna og bjó til vanillu smjörkrem sem ég setti bæði á milli og yfir kökuna. Ég geri svo alltaf síróp fyrir þessa köku sem ég smyr yfir hana þegar hún er ennþá heit.  Kreminu sprautaði ég á með sprautustút frá Wilton nr. 104 og hérna er frábært video þar sem kennt er hvernig sprauta á svona rósaköku 🙂 Ekki hræðast þetta verkefni. Þetta munstur er mjög fyrirgefandi 😉 Sítrónukaka með bláberjamauki og vanillu smjörkremi - uppskrift www.alltsaett.comSítrónukaka með bláberjamauki og vanillu smjörkremi - uppskrift www.alltsaett.com Sítrónukaka með bláberjamauki og vanillu smjörkremi - uppskrift www.alltsaett.com

Hérna koma svo uppskriftirnar:

Sítrónukaka:

 • 200 gr mjúkt smjör
 • 230 gr sykur
 • 4 stór egg
 • 190 gr hveiti
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • Fínt rifinn börkur af tveimur sítrónum (helst lífrænum)

Aðferð:

 • Hitið ofninn í 170°C. Smyrjið tvö 20 cm kökuform með olíu eða smjöri. Klippið smjörpappír í botninn og í hliðarnar á forminu.
 • Setjið smjör, sykur og sítrónubörkinn í hrærivélaskál. Þeytið með spaðanum þar til blandan er orðin létt og ljós, í ca. 3 mínútur.
 • Þeytið eggin örlítið með písk í annarri skál og bætið þeim rólega við blönduna.
 • Blandið lyftiduftinu út í hveitið og blandið vel. Nú er okkur óhætt að bæta hveitinu út í deigið og blanda öllu vel saman í hrærivélinni.
  Skiptið deiginu á milli tveggja bökunarforma og bakið í ca. 45 mínútur.
  Fjarlægið kökuna úr ofninum og látið hana standa á kæligrind. Meðan kakan er enn heit stingið þá í hana á mörgum stöðum með grillpinna svo sírópið eigi greiða leið niður í kökuna. Penslið sírópinu yfir báða botnana og leyfið henni að kólna í ca. 5 mínútur. Hvolfið þá kökunum á vírgrindina og leyfið þeim að ná herbergishita. Þessir botnar eru ekkert síðri daginn eftir að þeir eru bakaðir en þá pakkar maður þeim vel inn með matarfilmu (vita wrap) og lætur þá standa a borði yfir nótt.

Sykursíróp:

 • 5 msk sítrónusafi
 • 75 gr sykur

Aðferð:

 • Setjið sítrónusafann ásamt sykrinum í lítinn pott. Hitið að suðu. Hrærið vel í blöndunni og slökkvið undir pottinum. Látið sírópið kólna aðeins áður en þið berið það á kökuna.

Blárberjamauk:

 • 500 gr frosin bláber
 • 2 msk sykur

Aðferð:

 • Setjið bláberin ásamt sykrinum í pott og látið sjóða í 10 mínútur. Hrærið í blöndunni á meðan hún sýður.
 • Leyfið blöndunni að kólna alveg niður áður en þið setjið hana á kökuna.

Ég notaði þetta smjörkrem á kökuna. Þetta er stór uppskrift en við notum mikið af kremi þegar við sprautum út rósina á kökuna 🙂

Að setja kökuna saman:

 • Setjið annan kökubotninn á kökudiskinn sem á að nota. Þegar ég fylli kökur með sultu eða mauki þá byrja ég á því að sprauta kreminu í hring yst á neðri kökubotninum og þannig bý ég til stíflu. Þá er ekki hætta á því að sultan eða maukið leki út í kremið sem fer yfir kökuna.
 • Fyllið stífluna með bláberjamaukinu.
 • Setjið þunnt lag af smjörkremi yfir allt og leggið því næst hinn kökubotninn ofan á.
 • Nú er óhætt að skemmta sér við að smyrja kreminu yfir kökuna og sprauta rósina út.

Njótið vel 🙂

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *