Stökkar og seigar engifer-súkkulaðibitakökur – uppskrift

Mmm, ég elska engifer og ég elska súkkulaði svo þegar ég rakst á þessa uppskrift að engifer-súkkulaðibitakökum í gömlu jólablaði frá Mörtu Stjúard (Martha Steward) hjá tengdamömmu minni þá bara varð ég að prófa – og ég var ekki svikin. Þær eru æði!
Þetta eru svolítið „fullorðins“ kökur. Þegar ég segi það þá meina ég að það er mikið engiferbragð af þeim og þær eru pínulítið sterkar af þeim sökum enda notar maður bæði ferkst engifer og þurrkað í kökurnar svo ef þið eruð viðkvæm fyrir því þá endilega minnkið aðeins magnið.Engifer-súkkulaðibitakökur - Allt sætt - uppskrift

Í þessari uppskrift er notaður Mólassi (Molasses). Hvað er það, gætuð þið spurt en svo ég vitni í Cafe Sigrúnu; „Mólassi er þykkt síróp, hliðarafurð af hreinsunarferli sykurreys eða sykurrófa í borðsykur. Þar sem tilgangurinn er að ná sykrinum úr – og þetta er það sem verður afgangs – og er töluvert minni sykur í sírópinu.“ Hérna er að finna nánari upplýsingar um Mólassa en við fáum s.s. mun sætara bragð af kökunum án þess að bæta mikið af sykri út í degið. Hann gerir kökurnar líka svolítið seigar (chewy) – namm!Engifer-súkkulaðibitakökur - Allt sætt - uppskrift

Hérna er svo uppskriftin:

  • 240 gr  hveiti
  • 1 1/4 tsk þurrkað engifer
  • 1 tsk kanill
  • 1/4 tsk malaður negull
  • 1/4 tsk rifin fersk Múskat hneta (Nutmeg)
  • 1 msk kakó
  • 115 gr mjúkt smjör (við stofuhita)
  • 1 msk rifið ferskt engifer
  • 100 gr púðursykur
  • 4 msk Mólassi (Molasses – finnið það hjá lífrænu vörunum í Hagkaup)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 1/2 tsk sjóðandi vatn
  • 200 gr súkkulaði (dropar eða saxað)

Aðferð:

  • Blandið saman í skál hveiti, þurrkuðu engifer, kanil, negulnöglum, múskati og kakói. Geymið.
  • Setjið smjör og rifið engifer í skál og þeytið saman þar til smjörið er orðið létt og ljóst, í um það bil 3 mínútur.
  • Bætið púðursykrinum við og blandið áfram þar til allt er vel blandað saman.
  • Bætið Molasses út í og blandið áfram.
  • Blandið saman í lítilli skál eða glasi sjóðandi vatni og matarsóda.
  • Blandið helmingnum að þurrefnablöndunni út í deigið.
  • Hellið matarsódanum út í blönduna og blandið saman.
  • Setjið nú restina af þurrefnunum út í deigið og blandið öllu vel saman.
  • Munið að skafa skálina vel að innan með sleikju nokkrum sinnum til að vera viss um að ekkert sitji eftir á botninum.
  • Að lokum er súkkulaðinu blandað út í deigið.
  • Hvolfið deginu á matarfilmu og fletjið það út í ca. 2 cm þykkan disk. Lokið deiginu með matarfilmunni. Kælið degið í ísskáp þar til það hefur stífnað í u.þ.b. 2 tíma (eða yfir nótt).
  • Hitið ofninn í 160°C.
  • Brjótið litla bita af deginu og búið til litlar kúlur í lófanum – stærðin er ca. 3 cm eða eins og litlar kartöflur og leggið á ofnplötu sem klædd er með smjörpappír.
  • Kælið kúlurnar í ísskáp í ca. 20 mínútur.
  • Takið þær út og rúllið þeim upp úr strásykri. Setjið á ofnplötu með góðu bili á milli og bakið kökurnar í 13-15 mínútur eða þar til sprungur myndast ofan á þeim.
  • Látið kökurnar standa á bökunarplötunni þegar þær koma úr ofninum í ca. 5 mínútur. Færið þær þá yfir á vírgrind og leyfið þeim að kólna alveg.

Snilldarráð er að búa til kúlurnar og kæla þær. Setja þær þá í litla frystipoka og frysta. Svo er hægt að taka út nokkrar kúlur þegar von er á gestum og baka þessar elskur fyrir alla til að njóta. Þetta má líka gera við súkkulaðibitakökudeig.

Njótið vel!

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *