Nammisprengja – vanillukaka með Milka súkkulaði og appelsínusmjörkremi

Þessi kaka er frábær í öll afmæli, hvort sem verið er að fagna 5 eða 75 árum – hún gleður alla (nema kannski þá sem eru að detoxa 😉 ).

Ég bakaði þessa vanilluköku (hún dugar í 2*23 cm form eða 3*20 cm) og ég skar niður Caramel cream súkkulaði frá Milka í þokkalega stóra bita og blandaði varlega út í degið rétt áður en ég skipti því upp milli bökunarformanna. Oft á súkkulaðið það til að safnast saman í botninum á forminu. Stundum virkar það að velta súkkulaðibitunum upp úr örlitlu hveiti áður en þeim er blandað út í degið. Þeir ákváðu þó að hvíla sig á botninum í þetta skiptið en það gerir bara ekkert til. Þá verður til svona karamellu-súkkulaði lag neðst sem er bara dásamlegt 🙂

Mig langaði að hafa kremið appelsínugult og því ákvað ég að setja appelsínubörk út í það og tengja þannig litinn og bragðið saman. Appelsínusmjörkrem er ekki allra en þið setjið bara það bragð sem þið viljið í kremið. Ég mæli líka með vanillukremi með þessum vanillu-súkkulaðibotnum. *slurp*Nammisprengja - vanillukaka með Milka súkkulaði og appelsínusmjörkremi

Nammisprengja - vanillukaka með Milka súkkulaði og appelsínusmjörkremiNammisprengja - vanillukaka með Milka súkkulaði og appelsínusmjörkremiTil að skreyta kökuna þá bræddi ég í örbylgjuofni gulan og grænan súkkulaðihjúp. Þið getið líka litað hvítt súkkulaði í hvaða lit sem þið viljið. Hérna eru leiðbeiningar um það hvernig best er að lita súkkulaði.
Ég keypti svo litlu sykurpúðana í Söstrene grene, Candy flossið keypti ég á N1 en það hefur líka fengist í Hagkaup. Nammið valdi ég svo á nammibarnum á N1 og í Hagkaup. Ég sturtaði svo appelsínu POP Candy (æi þið vitið svona nammi sem smellur og poppar upp í manni – hrikalega skemmtilegt!) yfir alla kökuna. POP nammið fékk ég í Tiger.
Candy flossið leggst niður á svona 6-8 tímum svo það borgar sig ekki að setja það of snemma á kökuna.

Hérna er svo uppskrift að smjörkreminu: 

  • 300 gr mjúkt smjör
  • 600 gr flórsykur
  • Fínt rifinn börkur af 1/2 – 1 appelsínu – EÐA 2 tsk vanilludropar
  • 3 msk mjólk
  • 2-3 dropar af matarlit 

Aðferð:

  • Setjið smjörið í hrærivélaskál og þeytið smjörið þar til það er orðið létt og ljóst, í ca. 4 mínútur.
  • Bætið flórsykrinum út í smjörið í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli.
  • Setjið bragðefnið og mjólkina út í og blandið vel.
  • Nú er óhætt að setja matarlitinn út í kremið. Byrjið á því að setja lítið af matarlitnum og bætið svo smátt og smátt við lit þar til þið hafið náð þeim lit sem þið óskið.
  • Þeytið kremið áfram í ca. 3 mínútur.
  • Ef kremið er of stíft þá má láta renna sjóðandi heitt vatn utan á hrærivélaskálina í smá stund. Hitinn á skálinni fær smjörið til að mýkjast upp og léttir kremið. Þeytið kremið þá aftur í eina mínútu.

Nammisprengja - vanillukaka með Milka súkkulaði og appelsínusmjörkremi

Þegar þið skerið köku sem er skreytt með súkkulaði ofan á þá er best að láta heitt vatn renna á hnífinn sem nota á til að skera kökuna – hann rennur þá í gegnum súkkulaðið áreynslulaust.

Njótið!

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *