Stökkir vanillubitar með súkkulaði og hnetum

Stundum langar mig að baka eitthvað svakalega einfalt, eitthvað sem tekur ekki langan tíma en smakkast dásamlega. Þessir kökubitar eru einmitt þannig: hráefnin eru einföld, aðferðin er einföld en niðurstaðan er meira en ásættanleg – reyndar bara alveg geggjuð!

Þessa dásemd er t.d. auðvelt að baka fyrir vinnu og láta hana svo bíða á borðinu eftir manni þegar maður kemur heim. Hún er frábær með kaffinu, sniðug að taka með á bekkjarkvöld, flott í saumaklúbbinn eða í morgunkaffið í vinnunni.
Botninn er líkastur stökku vanillukexi. Svo hellir maður súkkulaði yfir hann og lætur það bráðna, kastar svo nokkrum hnetum yfir súkkulaðið og voila!
samsettKaka2Kaka4Kaka6

Stökkir vanillubitar með súkkulaði og hnetum: 

  • 230 gr mjúkt smjör
  • 150 gr ljós púðursykur
  • 1 eggjarauða
  • 350 gr hveiti
  • 1 tsk vanilludropar
  • 300gr súkkulaðidropar
  • 50-100 gr af hnetum (t.d. Pekan, Valhnetu eða Pistasíu)

Aðferð:

  • Hitið ofninn í 180°C og smyrjið eldfast mót með smjöri. Formið sem ég nota er 28 x 28 cm.
  • Þeytið smjörið og púðursykurinn þar til blandan er orðin létt og ljós, í ca. 4 mínútur.
  • Bætið eggjarauðunni út í og blandið áfram vel.
  • Blandið nú hveitinu og vanillunni saman við.
  • Hellið deiginu í formið og dreyfið úr því svo það verði allt jafn þykkt.
  • Bakið í 30 mínutur eða þar til toppurinn á kökunni er orðinn gylltur.
  • Takið þá kökuna úr ofninum og dreyfið súkkulaðidropunum yfir kökuna.
  • Setjið kökuna aftur inn í ofn í ca 3 mínútur svo súkkulaðið nái að bráðna.
  • Eftir þrjár mínútur er kakan tekin úr ofninum og formið sett á kæligrind.
  • Þá er að dreyfa úr súkkulaðinu með spaða eða skeið og strá hnetunum yfir súkkulaðið.
  • Kakan er látin kólna alveg áður en hún er skorin í bita.

Njótið vel!

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *