Súkkulaðibollakökur með sykurpúðafjalli og súkkulaðibráð

Ég hef haft augastað á þessum flottu bollakökum lengi enda súper djúsí að sjá en ég viðurkenni það alveg að það hræddi mig pínulítið að snúa bollaköku með fjalli af sykurpúðakremi á yfir fljótandi súkkulaðibráð, dýfa fjallinu í súkkulaðið og láta kökuna svo bara hanga rólega yfir súkkulaðinu þar til það hætti að leka af. Um liðna helgi var enginn bakstur á dagskrá en ég vaknaði á sunnudagsmorguninn með þessar á heilanum. Ég ákvað því bara að prófa þær enda engin pressa, ekkert kaffiboð né afmæli sem hefði eyðilagst ef sykurpúðafjallið hefði blandast saman við bráðið súkkulaðið og allt dottið í sundur 😉 En þetta gekk allt saman eins og í lygasögu! Ég lenti aldrei í vandræðum. Kremið losnaði aldrei af bollakökunum og þær smakkast æðislega!
Ef þið haldið að þið hafið smekk fyrir þessum látið ekki aðferðina hræða ykkur. Þetta er ekkert mál 🙂

Súkkulaðibollakökur með sykurpúðafjalli og súkkulaðibráð - uppskrift alltsaett.comSúkkulaðibollakökur með sykurpúðafjalli og súkkulaðibráð - uppskrift alltsaett.com
Ég bakaði þessar súkkulaðibollakökur en helmingaði uppskriftina, þá gefur hún ca. 20-24 kökur.

Sykurpúðakrem (nóg á 20-24 kökur):

3 eggjahvítur
150 gr sykur
1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  • Fyrst þarf að gæta að því að skálin og þeytarinn séu laus við alla fitu. Best er að þvo bæði upp úr sjóðandi heitu sápuvatni, skola svo vel og þurrka með alveg hreinu viskastykki. Sumir þurrka innan úr skálinni og þeytarann með sítrónusafa en sýran leysir fituna upp.
  • Þá er næst að setja vatn (1/3) í lítinn pott og hita vatnið.
  • Aðskiljið eggjahvíturnar frá rauðunum og setjið í skálina ásamt sykrinum og vanilludropunum og pískið saman. Skálin fer þá ofan á pottinn með sjóðandi vatninu.
  • Nú er mikilvægt að fara ekki frá skálinni og vera dugleg að hræra í eggja og sykurblöndunni svo eggin eldist ekki. Blandan er hituð upp í ca 65°C-70°C eða þangað til sykurinn hefur alveg leyst upp í eggjahvítunum en það finnum við með því að taka örlítið af blöndunni og nudda henni milli tveggja fingra. Ég nota ekki hitamæli, frekar finn ég blönduna milli fingranna. Ef þið finnið ennþá fyrir sykrinum þá þarf að hræra aðeins lengur.
  • Þegar blandan er tilbúin þá færum við skálina yfir í hrærivélina og hrærum á meðal hraða með písknum í ca 8 mínútur.
  • Sprautið kreminu strax á allar kökurnar því það myndar mjög fljótt „húð“. Ég notaði sprautustút númer 808 frá Ateco.

Setjið kökurnar með sykurpúðakreminu í ísskáp í 30 mínútur. Á meðan þær kólna skulum við útbúa súkkulaðibráðina.

Súkkulaðibráð:

  • 150 gr suðusúkkulaði eða súkkulaðidropar
  • 1,5 msk bragðlaus olía eins og t.d. Wesson eða Isio

Aðferð:

  • Brjótið súkkulaðið smátt og setjið það ásamt olíunni í skál sem þolir örbylgjuofn. Hitið súkkulaðið í örbylgjuofni í 30 sekúndur í einu þar til það er alveg bráðið og það hefur blandast olíunni. Hrærið varlega í súkkulaðinu á milli svo það brenni ekki.

Þegar bollakökurnar er orðnar kaldar þá er okkur óhætt að dýfa þeim í súkkulaðibráðina. Ég mæli með því að þið setjið súkkulaðið í ramekin eða litla skál áður en þið dýfið kökunum í . Skálin þarf að vera nógu djúp svo að sykurpúðakremið nái ekki niður í botninn á skálinn og ekki of víð svo súkkulaðið nýtist betur þegar við dýfum kökunum í það.
Gylltu formin fékk ég í Söstrene Grene.

Góða skemmtun!

Súkkulaðibollakökur með sykurpúðafjalli og súkkulaðibráð - uppskrift alltsaett.com

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *