Eins og þið vitið þá elska ég kökur og kökuskreytingar. Fyrir nokkrum árum kynntist ég kökunum hennar Peggy Porschen en hún rekur lítið bakarí/kaffihús í London. Maður má samt ekki láta blekkjast og halda að hún og hennar fólk baki bara nokkrar kökur og bollakökur á degi hverjum og selji þær í litla fallega kaffihúsinu í Belgravia. Peggy hefur í mörg ár, eða frá árinu 2003, boðið upp á brúðartertur sem eru „out of this world“.
Meðal viðskiptavina hennar eru til að mynda breska konungsfjölskyldan, hún bakaði brúðartertuna fyrir Kate Moss og Jamie Hince og líka fyrir Stellu McCartney. Hún hefur séð um kökur fyrir Elton John, Sting, Madonnu og Gwyneth Paltrow. Á heimasíðu Peggy Porschen kemur fram að verðið fyrir sérhannaða (one of a kind) brúðartertu/veislutertu er FRÁ 500.000kr!.
Litla kaffihúsið opnaði Peggy árið 2010 og varð það til þess að við hin gátum látið eftir okkur að smakka kökurnar hennar 🙂
Peggy hefur gefið út margar kökubækur þar sem hún fer ítarlega yfir bakstur og kökuskreytingar. Þar er einnig að finna margar mjög góðar uppskriftir. Nú síðast gaf Peggy út bókina Cakes in bloom en þar kennir hún sykurblómagerð, en það er nú alveg sér listgrein sem ég væri til í að mastera.
Peggy rekur líka skóla en þar er hægt að sækja stutt námskeið í kökuskreytingum og bakstri en einnig bíður hún upp á diplomanám. Mig hefur lengi dreymt um að sækja námskeið hjá henni og í nóvember rættist sá draumur. Ég skráði mig á námskeiðið Professional cake maker diploma – decorating techniques en það er 5 daga námskeið þar sem farið er yfir allar helstu aðferðir við kökuskreytingar.
Ég hef nú þegar nokkra reynslu í kökuskreytingum en það er auðvitað alveg frábært að sækja námskeið hjá atvinnumönnum í faginu og fá að læra hvaða aðferðum þeir beita við kökuskreytingar. Ég lærði auðvitað alveg heilan helling!
Hérna eru svo nánari upplýsingar um námskeiðin sem eru í boði hjá Peggy Porschen Academy.
En svo að framhaldinu – á allra næstu dögum mun ég byrja að auglýsa mín eigin námskeið í kökuskreytingum svo endilega fylgist áfram með á blogginu og Facebook.
Ást og friður.