Þessar litlu fallegu kökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær er rauðar, léttar kökur með súkkulaðibragði og svo rúsínan í pysluendanum (ojj!) er að toppa þær með geggjuðu vanillu rjómaostakremi. Ég var lengi að finna uppskrift að fullkomnu rjómaostakremi en þegar ég heimsótti litla bakaríið hennar Peggy Porschen í London þá fann ég loksins hið fullkomna krem. Ég var fljót að panta uppskriftabókina hennar, Boutique baking en þar er einmitt að finna uppskriftina að þessu dásamlega kremi ásamt mörgum öðrum skemmtilegum uppskriftum.
Hérna kemur uppskriftin að bollakökunum:
- 60 gr mjúkt smjör
- 150 gr sykur
- 1 egg
- 10 gr kakó
- 20 ml rauður matarlitur (ég nota Rayner’s sem fæst í Bónus)*
- 1/2 tsk vanilla
- 120 ml súrmjólk eða AB mjólk
- 150 gr hveiti
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk matarsódi
- 1 1/2 tsk hvítvínsedik
Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C
Setjið sykurinn og smjörið í skál og hrærið þar til blandan er orðin létt og ljós, í ca. 3 mínútur. Bætið egginu út í og haldið áfram að hræra þar til allt er komið vel saman.
Blandið saman kakói, vanillu og rauðum matarlit í annarri skál. Hellið blöndunni út í hrærivélaskálina og blandið öllu vel saman. Skafið hliðarnar á skálinni að innan svo öll hráefnin blandist vel saman.
Hellið núna helmingnum af hveitinu og helmingnum af súrmjólkinni til skiptis út í blönduna og hrærið vel á milli. Endurtakið þar til allt hveitið og öll súrmjólkin er komin út í degið. Skafið skálina að innan með sleikjunni og hrærið svo blönduna í ca. 2-3 mínútur.
Slökkvið á hrærivélinni og bætið nú saltinu, matarsódanum og hvítvínsedikinu út í. Hrærið allt vel saman í 2 mínútur.
Fyllið pappaformin upp að 2/3 og bakið kökurnar í 22-25 mínútur. Þegar kökurnar hafa fengið tíma til að kólna setjum við rjómaostakremið á þær.
Rjómaostakrem:
- 200 gr mjúkt smjör
- 200 gr mjúkur rjómaostur (ég nota alltaf rjómaostinn frá Philadelphia)
- 500 gr flórsykur
- 1 stk vanillustöng
Aðferð:
- Setjið smjörið, flórsykurinn og fræin úr einni vanillustöng í skál og þeytið vel, eða þar til blandan er orðin létt og ljós (ca. 5 mínútur). Skafið skálina með sleikju að innan og þeytið smjörblönduna áfram ef eitthvað hefur setið eftir á botninum.
- Blandið nú rjómaostinum (sem verður að vera við herbergishita því annars blandast hann ekki almennilega við smjörblönduna) út í og þeytið í 1-2 mínútur eða þar til kremið er alveg laust við kekki. Ath! það þarf að fara varlega þegar rjómaosturinn er kominn út í kremið að þeyta það ekki of mikið því þá getur hann skilið sig. Fylgist því með kreminu og hættið að þeyta um leið og rjómaosturinn er að fullu blandaður við kremið og það er orðið silkimjúkt.
- Sprautið kreminu á bollakökurnar og njótið þeirra með góðum kaffibolla eða mínu uppáhaldi, köldu kampavínsglasi 😉
Góða helgi 🙂
One thought on “Red velvet bollakökur með rjómaostakremi – uppskrift”