Bestu brownies sem ég hef smakkað – uppskrift

Haustið er komið í allri sinni dýrð, með roki og rigningu. Mig langar pínulítið að blóta því en svo þegar ég sit hérna og skrifa þetta blogg við kertaljós með kaffi og brownies og hlusta á vindinn úti þá hugsa ég – nahh, þetta blessaða haust er nú ekki alslæmt. Það er svo auðvelt að búa til kósí stemningu þegar það fer að rökkva aftur (og svo sést rykið ekki jafn mikið ;))

Í dag langar mig að deila með ykkur uppskrift að æðislegum brownies. Þessar eru með súkkulaðibitum í, bæði hvítu- og mjólkursúkkulaði. Fyrir ykkur sem elskið hnetur þá er ekkert mál að bæta út í degið ca. 100gr af t.d. söxuðum pistasíum eða valhnetum 🙂 
Geggjaðar Brownies - uppskrift á www.alltsaett.com Geggjaðar Brownies - uppskrift á www.alltsaett.comHérna er svo uppskriftin:

 • 185g smjör
 • 185g gott dökkt súkkulaði
 • 85g hveiti
 • 40g kakó
 • 50g hvítt súkkulaði (ég nota súkkulaðið frá Green & Black’s)
 • 50g mjólkursúkkulaði
 • 3 egg
 • 275g ljós púðursykur

Aðferð:

Hitið ofninn í 160°C.
Setjið álpappír í form sem er ca 20x20cm. Látið álpappírinn ná yfir brúnirnar á forminu. Spreyið formið (álpappírinn) með olíu, t.d. Pam. Klippið til smjörpappír svo hann passi í botninn á forminu (ofan á álpappírinn).

 • Bræðið saman dökka súkkulaðið og smjörið yfir vatnsbaði – kælið. Ef við sleppum því að kæla blönduna niður í herbergishita þá mun hún bræða súkkulaðimolana sem við setjum út í degið.
 • Saxið hvíta súkkulaðið og mjólkursúkkulaðið niður í (litla) bita. Setjið til hliðar.
 • Sigtið saman í sér skál hveiti og kakó.
 • Setjið egg og púðursykur í skál og þeytið þar til blandan er létt og ljós (ca. 3-4 mín)
 • Hellið súkkulaði- smjörblöndunni út í eggja og púðursykurblönduna. Blandið varlega saman með sleikju.
 • Sigtið kakóið og hveitið aftur, núna beint í skálina með blöndunni í. Blandið varlega saman með sleikju.
 • Nú fara söxuðu súkkulaðibitarnir út í blönduna.
 • Hellið blöndunni í bökunarformið og bakið í ca. 45-50 mínútur.
 • Takið kökuna út úr ofninum og látið hana kólna alveg. Ég baka kökuna oft kvöldinu áður en ég ætla að bera hana fram því þá get ég skilið hana eftir á borðinu yfir nóttina. Það getur endað illa að ætla sér að skera heita brownies því kakan á þá til í að molna í sundur.
 • Náið góðu gripi á álpappírnum og lyfti kökunni upp úr forminu. Leggið hana á borð og skerið kökuna í hæfilega bita.

Njótið með góðum kaffibolla eða kaldri mjólk 🙂

Share

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *