Súkkulaðibollakökur með svakalegu súkkulaðikremi – uppskrift

Ef þú elskar súkkulaði þá skaltu halda áfram að lesa.
Um daginn rakst ég á þessa sjúklega girnilegu uppskrift að súkkulaðikremi hjá Manuelu hjá Passionforbaking og ég bara varð að prófa hana. Ég notaði 70% súkkulaði frá Nóa Síríus sem gerði kremið örlítið beiskt en það borðuðu það allir með bestu lyst, ungir sem aldnir 🙂 Þetta krem samanstendur af dökku súkkulaði, heimalagaðri karamellu og smjöri.
Ég lenti í smá ógöngum þegar ég reyndi við kremið í fyrsta sinn en aðferðin er þannig að við útbúum karamelluna fyrst. Þá sjóðum við saman sykur og vatn þar til við náum þessum fallega karamellulit. Þá er rjómanum (sem hitaður er að suðu) blandað varlega saman við karamelluna og hrært í jafn óðum. Það sem gerist þegar rjóminn fer út í sjóðandi heita karamelluna er að sósan kraumar svakalega og ef potturinn er ekki þeim mun stærri þá flæðir hún upp út pottinum og yfir allt! Það var ekkert sérstaklega gaman að reyna að ná karamellunni af gashelluborðinu eftir þetta slys. Ég legg því áherslu á að þið sjóðið sykurinn og vatnið í þokkalega stórum potti (ekki reyna að vera með svona lítinn og sætan pott eins og Manuela er með í sínu bloggi 😉 ).
Ég þurfti (svona helst) að setja kremið á eitthvað svo ég bakaði súkkulaðibollakökur eftir uppskrift sem ég nota mikið.
Bollakökuformin og sprautustútinn (Wilton 2D) fékk ég hjá Allt í köku og fánana fékk ég hjá Söstrene Grene.
Súkkulaðibollakökur með svakalegu súkkulaðikremi - uppskrift www.alltsaett.com Súkkulaðibollakökur með svakalegu súkkulaðikremi - uppskrift www.alltsaett.com Súkkulaðibollakökur með svakalegu súkkulaðikremi - uppskrift www.alltsaett.com Súkkulaðibollakökur með svakalegu súkkulaðikremi - uppskrift www.alltsaett.com
Súkkulaðibollakökur (ca 40 stk)

  • 400 gr hveiti
  • 100 gr kakó
  • 2 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 440 gr sykur
  • 500 ml súrmjólk
  • 320 ml grænmetisolía (eða önnur bragðlaus olía)
  • 4 stór egg
  • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

  • Hitið ofninn í 180°C.
  • Sigtið hveiti, kakó, salt og matarsóda saman í skál. Setjið til hliðar.
  • Setjið sykur, súrmjólk, olíu, egg og vanilludropa í hrærivélaskál og þeytið á miðlungshraða í ca. 2 mínútur.
  • Blandið þá hveitiblöndunni rólega út í. Skafið hliðarnar og botninn á hrærivélaskálinn með sleikju svo allt blandist nú vel saman. Hrærið áfram í eina mínútu.
  • Skiptið deiginu í bollakökuformin (fyllið þau að 2/3) og bakið í 18-20 mínútur. Látið kökurnar kólna á vírgrind.

Súkkulaðikrem:
þessi uppskrift er mjög stór en það er ekkert mál að helminga hana. Ég notaði alveg 3/4 af kreminu á 45 bollakökur.

  • 225 gr sykur
  • ½ dl vatn
  • 3 ½ dl rjómi
  • 450 gr dökkt (55% – 70%) súkkulaði (fínt saxað eða í litlum dropum)
  • 450 gr smjör, skorið í litla teninga

Aðferð:

  • Setjið súkkulaðið í hrærivélaskál.
  • Blandið saman sykri og vatni í meðalstórum potti. Hitið á miðlungshita þar til sykurinn er uppleystur (blandan verður glær). Hrærið reglulega í blöndunni.
  • Hækkið hitann og látið blönduna sjóða (núna má alls ekki hræra neitt í blöndunni) þar til hún verður gullin á litin – eins og karamella 😉 Þetta ferli tekur ca. 10 mínútur. Takið pottinn af hitanum.
  • Hitið rjómann að suðu. Hellið honum varlega saman við karamelluna og hræri varlega. Ath! hérna þarf að fara mjög varlega því karamellan kraumar mikið og getur flætt yfir barmana. Látið karamelluna standa í ca. 3 mínútur.
  • Hellið karamellunni yfir súkkulaðið og látið blönduna standa í eina mínútu.
  • Hrærið núna blönduna í hrærivél á miðlungs hraða (með písknum) þar til blandan kólnar og skálin er ekki lengur heit viðkomu ( tekur ca. 3-5 mínútur)
  • Þá er okkur óhætt að blanda smjörinu út í súkkulaðið og hræra áfram þar til kremið er orðið létt og silkimjúkt.
Njótið vel!

 

Share

2 thoughts on “Súkkulaðibollakökur með svakalegu súkkulaðikremi – uppskrift

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *